Friday, December 10, 2004

Gamlar minningar

Ég heimsótti stelpurnar mínar um daginn. Ég veit ekki hvort ég eigi að fjalla um það hér. Það fór ekki eins og ég hafði séð fyrir mér og ég lennti í rifrildi við konuna sem ég elska. Kannski var það gott. Kannski verður það til þess að hreinsa andrúmsloftið. Um kvöldið, þegar ég var búinn að svæfa Rósu varð ég mér úti um efni til að reykja. Ég hef ekki gert það síðan ég var fimmtán eða sextán. Ég saug reykinn ofan í lungu. 20 til 50 prósent af tetrahýdrókannabínóli, kallað thc og orsakar vímuna barst á örskömmum tíma frá lungunum, inn í blóðrásina og upp í heila. Stuttu síðar lognaðist ég út af inn í veruleikann sem ég var að sækjast eftir. Ég sökk svo djúpt inn í hausinn á mér og eftir að líkami minn hætti að taka á sig hin og þessi form var ég ekki lengur meðvitaður um hann. Eðlilega tóku hugsanirnar við hver af annarri, sveipaðar fáránlegum dýrðarljóma þar sem öll skynfæri mín hjálpuðust að við að gera vímuna sem ánægjulegasta. En auðvitað endaði ég á leiðinlegasta stað í heimi. Fyrst byrjaði ég að hugsa um stelpurnar, svo konuna og byrjaði auðvitað að grenja eins og fáviti. Og svo sá ég mig í skólanum í gamla daga, voða lítinn og bjartsýnan að segja kennaranum hvað ég ætlaði að verða. Það gerir manni bara grein fyrir að staða manns í lífinu er ekki eins og maður hafði séð fyrir sér.

Svo sá ég mig í fanginu á mömmu. Ég man alveg eftir því. Þetta er besta minningin sem ég á um okkur saman. Ég saug brjóst hennar. Hún hallaði höfðinu aftur. Fyrsta mjólkin sem ég fékk inn fyrir mínar varir var gul og þykk, kölluð broddur og er mikilvæg fyrir nýfædd börn. Í líkama mömmu losnaði um hormónana prólaktín og oxytocin sem fékk mjólkurkyrtlana í brjósti hennar til að dragast saman svo losnaði um mjólkina og hún streymdi upp í munninn á mér. Það orsakaði líka samdrætti í legi hennar og með því að hamast á brjóstinu hjálpaði ég við að draga úr blæðingunni í klofinu. Og ég man að ég fékk á tilfinninguna að við yrðum alltaf saman. Og mamma sagði það líka. Hún hvíslaði að við yrðum alltaf saman.

Ég þótti mjög fallegt barn. Pabbi sagði mér að allir sem hefðu komið í heimsókn hefðu haft orð á því. Ég varð hinsvegar ljótur unglingur. Öll fallegu hlutföllin úr æskunni runnu saman í andlitinu á mér eins og ég hefði droppað sýru.

Enn málið er að mamma sveik mig. Hún skildi við pabba minn og byrjaði með einhverjum dópista. Þegar ég var átta ára kenndi hann mér að búa til spíttumslög. Samband mitt og mömmu hefur alltaf verið stormasamt síðan þá. Auðvitað elska ég þessa konu sem fæddi mig í þennan heim en oft á ég erfitt með að þola hana. Hvernig hún tekur oft málstað konunnar minnar. Það gildir ekki bara með hana, það er eins og hún fái eitthvað út úr því að vera á móti mér, eins einkennilega og það hljómar.

Á endanum var ég tekinn frá henni. Hún drakk mig frá sér. Eftir það hefur hún oft viljað ræða málin. Það er algjört rugl. Hvað ef ég tæki upp á því sama, myndi drekka og dópa þar til stelpan mín yrði tekin af mér. Yrði ég ekki bara að horfast í augu við það? Hefði það eitthvað að segja að biðjast afsökunar? Mér mundi ekki líða betur. Ekki henni heldur. Fortíðin breytist ekki með orðum, að fólk tali saman. Dópneyslan er sú sama. Barsmíðarnar líka. Tilfinningarnar geta tekið á sig aðra mynd enn eru að grunninum til þær sömu. Og fólk fær samviskubit. Mamma skrifaði mér einu sinni langt bréf til þess að biðjast afsökunar. Ég lét það eftir henni og hef alltaf séð eftir því. Ég hef engan rétt á að haga mér eins og hún og smala svo barnabörnunum við borðið og fara fram á að breyta tilfinningum þeirra. Það væri þeirra réttur að fá að finna fyrir þeim. Ef þær eiga eftir að sækjast eftir því skal ég verða við því enn um leið ætla ég að vara þær við að þær gætu farið að kenna sjálfum sér um. Eina sem maður getur í raun gert er að reyna að bæta sig.

Ég ætla aldrei að fyrirgefa mömmu. Ég vil finna fyrir reiðinni í litla hjartanu þegar ég hugsa um æskuna. Minnir mig á hvert hlutverk mitt er gagnvart stelpunum.

Og einu sinni hitti ég þennan mann sem mamma mín byrjaði með þegar hún hætti með pabba. Ég sat eins og bjáni fyrir framan hann á meðan hann þuldi upp hvað honum þætti leiðinlegt hvað ég hefði þurft að horfa upp á. Þegar hann hafði lokið sér af sagði ég að auðvitað skildi ég fyrirgefa honum. Fyrirgefa honum fyrir að gefa mér allar þessar minningar. Blóðið á veggjunum. Blóðið á gólfinu. Ég vil ekki að þú sért að burðast með þetta á bakinu. Nei. Auðvitað sagði ég það ekki. Ég sagði að ég hataði hann en þakkaði honum fyrir að hafa verið stundum góður við mig.

Ég ætla aldrei að reykja aftur. Það fer alveg með mann. Ég er enn þá þungur í höfðinu og allt líður svo hægt og þunglyndislega áfram. Ég man ekki einu sinni það sem ég er búinn að skrifa. Annars ætla ég aftur í heimsókn til krakkana þar sem seinasta heimsókn endaði ekki nógu vel. Mig langar að fara með þær eitthvað út, allar saman. Gera eitthvað skemmtilegt. Fara í Húsdýragarðinn. Er ekki annars ókeypis í hann??

1 Comments:

At 6:55 AM, Anonymous Anonymous said...

11. desember 2004

Það er ekki hægt að segja að þig vanti efni í bók. Þetta er mjög merkilegt lesning.

Ágúst Borgþór

 

Post a Comment

<< Home