Wednesday, October 13, 2004

Erfiður morgun með dóttur, hommum og feitu fólki

Ég vaknaði hálf átta í morgun til að sinna stelpunni. Ég sofnaði ekki fyrr en um hálf sex í nótt og vissi að ef ég myndi leggjast aftur svæfi ég til hádegis. Rósa heimtaði að horfa á Stubbana á spólu um leið og hún vaknaði. Þessar sýrðu fríkúrur eru í miklu uppáhaldi hjá henni. Þetta eru fjórar verur, gul, græn, rauð og fjólublá með sjónvarp í maganum. Sérfræðingar á sviðum uppeldisfræða hafa komist að þeirri niðurstöðu að verurnar eigi að tákna fjölbreytileika fólksins í heiminum. Sá fjólublái, Tinkí Vinkí er tákn samkynhneigðra. Þetta er í takt við þá þróun sem á sér stað í sjónvarpi hinna fullorðnu. Yfirleitt er einn hommi í hverjum þætti til að létta upp á andrúmsloftið. Oftast er hann vinur einstæðrar fallegrar konu sem heitir fallegu krúttlegu nafni.

En hommarnir hafa gefist upp á að vera reiðir, eru meðvitaðir um að ef þeir eru nógu andskoti hressir öðlast þeir sjálfkrafa samþykki til að lifa í sátt og samlyndi með okkur hinum í afþreygingarsamfélaginu. Þetta er svipað með feita fólkið sem pakkar líðan sinni inn í óstjórnlega falska gleði til að lifa af. Til þess nota þau sjónvarpið. Mér finnst ég alltaf vera að sjá fólk sem hefur aldrei náð að létta sig koma fram í Morgunsjónvarpi Stöðvar 2. Þau þora ekki í sund, út í búð, í bíó eða á barinn, en þau eru tilbúinn til að dansa nakin ballett á skjánum. Sjónvarpið er lækningarmiðill. Öll megrun ætti að fara fram í sjónvarpinu.

Það var ekkert smá mál að koma henni í föt. Oftast virkar að ég bregði mér í hlutverk eins af stubbunum, Tinkí Vinkí, því hann er besti vinur Pó, sem er tákngerfingur nútímakonunar, sæt, viðkvæm en klár og tala við hana með barnarödd. Þannig niðurlægi ég okkur bæði.

Hún er í mikilli uppreisn gagnvart umhverfi sínu þessar vikurnar. Hentir öllu í gólfið sem hönd á festir og litli líkami hennar ræður við. Bókum sem ég er að lesa, kertastjökum og styttum. Samþykkir ekkert nema eftir harðar samningaviðræður. Ég held að hún sakni mömmu sinnar. Ég geri það líka. Samt hef ég ánægju af þessu háttarlagi. Það er svo sjaldan sem maður sér fólk gera uppreisn gagnvart umhverfi sínu eða sætta sig ekki við hlutskipti sitt í lífinu. Börnin kunna þetta, en með aldrinum eru þau svæfð af deyfð fjöldans og gefast upp á að gera nokkurn skapaðan hlut, fyrir utan að afla tekna, tryggja afkomu barna sinna, ríða endrum og eins og hafa áskrift að nokkrum sjónvarpsstöðvum og stunda líkamsrækt.

Ég fór svo með stelpuna upp á leikskóla. Enn og aftur lenti ég í rifrildi við fóstrurnar. Skil ekki í þessu. Ég er fyrir löngu búinn að borga þennan H"#$%&/ gíróseðil.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home